Íslenska

Um verkefnið

Verkefnið Hagkvæm máltækni utan ensku – íslenska tilraunin hefur að meginmarkmiði að þróa vísindalegar máltækniaðferðir sem henta auðlindalitlum tungumálum, einkum beyg­ingamálum. Að því verður unnið með því að endurbæta rannsóknaraðferðir og laga þær að ís­lensku; nýta sérkenni íslenskunnar til að þróa nýjar hagkvæmar aðferðir sem gera kleift að byggja upp tól og gögn á einfaldari hátt en áður; og nýta þverfaglega þekkingu rannsóknar­hópsins, reynslu hans úr fyrri verkefnum og samstarf við framúrskarandi erlenda vísindamenn til að tengja á frjóan hátt aðferðir ólíkra fræðigreina.

Innan verkefnisins verður unnið að þróun rannsóknaraðferða og gagna á þremur sviðum; merkingarnáms og merkingarneta, vélrænna grófþýðinga, og þáttunaraðferða og uppbygg­ingar trjábanka. Lögð verður áhersla á að tefla saman málvísindalegum og tölfræðilegum að­ferðum og láta þær vinna saman til að skapa nýja þekkingu og opna nýja möguleika.

Ávinningur verkefnisins er í senn vísindalegur, tæknilegur, hagrænn og menningarlegur. Innan þess verða skrifaðar tvær doktorsritgerðir, þrjár meistararitgerðir og nokkrar ráðstefnu- og tímaritsgreinar, auk þess sem lögð verða drög að uppbyggingu mikilvægra gagnasafna. Vísindagildi verkefnisins felst annars vegar í þeim grunni sem það leggur að áframhaldandi rannsóknum og þróunarstarfi á sviði íslenskrar máltækni og hins vegar í þeim nýju aðferðum sem verða þróaðar til greiningar og rannsókna á íslensku en hafa jafnframt almennara gildi, ekki síst fyrir beygingamál.
%d bloggers like this: